
Um félagið
Stjórnendafélag Norðurlands Vestra sameinar stjórnendur og sjálfstætt starfandi aðila sem starfa í fjölbreyttum atvinnugreinum á Norðurlandi vestra. Félagið leggur ríka áherslu á að efla fagmennsku, styrkja leiðtogahæfni og standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna. Með fræðslu, ráðgjöf og öflugri hagsmunagæslu vinnum við stöðugt að því að styðja við félagsfólk okkar í síbreytilegu atvinnuumhverfi.
Upphaf félagsins má rekja aftur til ársins 1940, þegar hópur tíu verkstjóra, aðallega starfandi við vegagerð, sameinaðist um að stofna Verkstjórafélag Skagfirðinga og Austur-Húnavatnssýslu. Það nafn hélst þar til árið 1987, þegar núverandi heiti var tekið upp og félagið tók á sig þá mynd sem við þekkjum í dag – öflugt stéttarfélag með ríka sögu og skýra framtíðarsýn.
Kjarasamningar og réttindavernd
Við tryggjum félagsmönnum okkar betri kjör og verndum þeirra réttindi á vinnumarkaði.
Fræðsla og þjálfun
Við bjóðum upp á námskeið, ráðstefnur og vinnustofur sem miða að því að bæta stjórnunarhæfni og leiðtogahæfni.
Ráðgjöf og stuðningur
Við veitum faglega ráðgjöf í tengslum við starfsþróun, vinnumarkaðsmál og persónuleg málefni.
Sjúkrasjóður
Einn af öflugustu sjúkrasjóðum landsins. Greiðir bætur í veikinda- og slysatilfellum.
Stjórn félagsins
Jón Örn Stefánsson
(Formaður)
Ásmundur Baldvinsson
(Gjaldkeri)
Hulda Björg Jónsdóttir
(Ritari)
Saga félagsins
Verkstjórafélag Norðurlands vestra var stofnað 30. desember 1940 á Sauðárkróki. Það voru tíu verkstjórar, aðallega vegavinnuverkstjórar, úr Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu sem stofnuðu félagið og var það þá nefnt Verkstjórafélag Skagfirðinga og Austur-Húnavatnssýslu og hélt því nafni til 31. maí 1987, en þá var nafni félagsins breytt í Verkstjórafélag Norðurlands vestra. Árið 2018 var nafni félagsins svo breytt í Stjórnendafélag Norðurlands vestra.
Félagsstofnunin átti sér aðdraganda. Fyrir árslok 1940 höfðu orðið nokkur tíðindi varðandi stofnun nýrra verkstjórafélaga. Það hafði komið fram á aðalfundi Verkstjórasambands Íslands í mars að Kristján Hansen á Sauðárkróki og sjö verkstjórar aðrir hefðu óformlega stofnað verkstjórafélag fyrir sitt svæði. Það hafði gerst á fundi 24. október 1939 að tilhlutan Karls Friðrikssonar varaforseta Verkstjórasambands Íslands og brúarsmiðs. Félaginu var ætlað að vera deild í sambandinu en þar sem lög og starfsreglur slíkrar deildar lágu ekki fyrir var formlegri stofnun félagsins frestað.
Síðla árs 1940 heimsótti forseti Verkstjórasambands Íslands, Jóhann Hjörleifsson, Sauðárkrók og Akureyri til að athuga möguleika á stofnun deilda. Á Sauðárkróki hafði hann samband við Kristján Hansen og fleiri verkstjóra sem áður höfðu áformað stofnun félags. Ákveðið var að stofna þar deild að fengnum starfsreglum. Þegar reglurnar komu til Sauðárkróks var brugðist skjótt við og félagið stofnað 30. desember 1940. Stofnendur félagsins voru vegavinnuverkstjórarnir Kristján og Friðrik Hansen, Ludwig Kemp, Rögnvaldur Ólafsson, Gísli Gottskálksson og Steingrímur Davíðsson, Sigurður Pétursson hjá Vita- og hafnamálum, Pétur Jónsson, sláturhússverkstjóri, Kristinn Gunnarsson við fiskvinnslu og Ásgrímur Halldórsson. Allir störfuðu þeir í Skagafirði nema Steingrímur sem vann á Blönduósi. Fyrsta stjórnin var þannig skipuð: Kristján Hansen formaður, Friðrik Hansen ritari og Gísli Gottskálksson vegaverkstjóri, gjaldkeri.
Starfsemi hins nýja verkstjórafélags var ekki mikil en regluleg. Aðalfundir voru árlega og mæting góð auk þess sem stjórnarmenn höfðu óformlegt samband sín á milli. Félagssvæðið var stórt en sannast sagna var félagsstarfsemin nær öll austan Vatnsskarðs eitthvað fram á sjötta áratuginn þar sem hinir fáu félagar úr Húnavatnssýslu áttu oft erfitt með að mæta á fundi sem haldnir voru um hávetur. Árið 1943 tók Rögnvaldur Jónsson við formennsku af Kristjáni Hansen og gegndi embættinu fram yfir 1950 en þá tók Gísli Gottskálksson við formennskunni.
Á fimmta áratugnum var litríkt lið í forystu félagsins og bera fundargerðir þess merki. Á aðalfundi 1946 á Hótel Tindastóli segir í fundargerð: „Voru fundarmenn í hörkurifrildi um reikningana, bæði gamla og nýja. Var allmikill hávaði í mönnum um tíma, en er komið var að því að bóka eitthvað um þetta voru fundarmenn orðnir sammála og höfðu allir haft rétt fyrir sér. Þegar hér var komið málum gerði stjórnin fundarhlé og var gengið til kaffidrykkju fram í veitingasalnum. Stóð þar dúkað borð og áður en langt leið glitti í tvær brennivínsflöskur í fullum skrúða á borðinu. Var snarlega tekinn tappinn úr þeim og eftir skamma stund tóku fundarmenn fyrir alvöru að komast á ræðupallinn….“
Alvaran var þó yfirleitt í fyrirrúmi og má nefna þrjú mál sem félagið gerði að baráttumálum: Forgangsréttur heimamanna til vinnu og forgangsréttur „réttindamanna“ til verkstjórastarfa, samræming á kaupi verkstjóra á svæðinu, einkum vegavinnuverkstjóra og loks greiðslur til vegavinnuverkstjóra fyrir notkun þeirra á eigin jeppabifreiðum í starfi. Þá má geta þess að strax í byrjun árs 1943 kom fram tillaga á aðalfundi um átta tíma vinnudag og að vegavinnuverkstjórar fengju rýmri tíma skrifaða.
Á fimmta áratugnum reyndi félagið að vinna að auknum forgangsrétti félagsmanna og gegn frjálsu vali atvinnurekanda á verkstjórum. Voru félagsmenn óánægðir með 7. grein kjarasamnings VSÍ sem gerði ráð fyrir því að atvinnurekendur mættu taka hvern sem væri til verkstjórnar og að verkstjórasamtökunum væri þá skylt að taka viðkomandi menn í félagið. Þótti starfandi verkstjórum atvinnuöryggi sitt harla lítið. Voru samdar ályktanir gegn því að menn á félagssvæðinu fengjust við verkstjórn án þess að hafa til þess „réttindi“. Var vísað til laga Verkstjórasambandsins um inntökuskilyrði í sambandið. Árið 1946 voru samþykkt ný lög fyrir deildina með hertum reglum. Veittu þau nú aðeins inngöngu eftir „þrjú ár samfleytt við verkstjórn“.
Eftir líflegt starf í upphafi dofnaði yfir félaginu á sjötta áratugnum en félagið reis upp úr öldudalnum á sjöunda áratugnum og þá fór félagsmönnum að fjölga. Í dag stendur félagið vel fjárhagslega og hugar að endurmenntun og kjaramálum jöfnum höndum en Samband Stjórnendafélaga, STF, fer með beina samninga fyrir það.
Stjórn Verkstjórafélags Norðurlands vestra 1989:
Hörður Þórarinsson ritari, og tekur síðan við formensku af Guðmundi Sigurðssyni, Ragnar Árnason gjaldkeri frá 1989 til 2013, Stefán Hafsteinsson var kosinn ritari þegar Hörður tók við formennsku til 2013.
Stjórn kosin á aðalfundi 2013:
Gísli Garðarsson formaður, Ingvar Jón Jóhannsson ritari og Ásmundur Baldvinsson gjaldkeri.
Stjórn kosin á aðalfundi 2015:
Kári Kárason formaður, Ingvar Jón Jóhannsson ritari og Ásmundur Baldvinsson gjaldkeri.
Á aðalfundi félagsins 2017 var samþykkt að breyta nafni félagsins í Stjórnendafélag Norðurlands vestra og tók breytingin gildi árið 2018.
Um svipað leyti var nafni Verkstjórasambands Íslands breytt í Samband Stjórnendafélaga.
Stjórn kosin á aðalfundi 2018:
Kári Kárason formaður, Ásmundur Baldvinsson gjaldkeri og Jóhannes Kári Bragason ritari.
Stjórn kosin á aðalfundi 2021:
Kári Kárason formaður, Ásmundur Baldvinsson gjaldkeri og Tómas Örn Daníelsson ritari.
Stjórn kosin á aðalfundi 2023:
Jón Örn Stefánsson formaður, Ásmundur Baldvinsson gjaldkeri og Hulda Björg Jónsdóttir ritari.
Stjórn kosin á aðalfundi 2025:
Jón Örn Stefánsson formaður, Ásmundur Baldvinsson gjaldkeri og Hulda Björg Jónsdóttir ritari.