Lög Stjórnendafélags Norðurlands vestra
Lög Stjórnendafélags Norðurlands vestra
I. Kafli
Nafn, heimili og varnarþing
1. grein.
Félagið heitir Stjórnendafélag Norðurlands vestra og er félag stjórnenda, verkstjóra og einyrkja. Heimili þess og varnarþing er á Sauðárkróki. Félagið er aðili að Sambandi Stjórnendafélaga, STF, sem fer með kjaramál félagsmanna.
2. grein.
Tilgangur
a. Að efla og styðja hag félagsmanna eins og kostur er.
b. Að efla samvinnu meðal félagsmanna.
3. grein.
Félagið sem slíkt hefur ekki afskipti af stjórnmálum.
4. grein.
Meðlimir félagsins geta þeir einir orðið sem eru með íslenska kennitölu og atvinnuleyfi á Íslandi.
5. grein.
Umsókn um inngöngu skal vera rafræn skráning á heimasíðu félagsins og/eða heimasíðu STF.
6. grein.
Félagsgjald skal ákveðið á aðalfundi hverju sinni og telst lagabrot ef ekki er greitt.
II. Kafli
Réttindi og skyldur.
7. grein.
Réttindi félagsmanna eru: málfrelsi, tillöguréttur og atkvæðisréttur á aðalfundi félagsins. Félagsmenn öðlast einnig réttindi í þeim sjóðum sem félagið er aðili að í gegnum STF og fara þau réttindi eftir reglum þeirra sjóða hverju sinni.
8. grein.
Greiði félagsmaður ekki félagsgjald telst hann ekki lengur meðlimur félagsins, skv. grein 12.
9. grein.
Verði ágreiningur milli atvinnurekanda og félagsmanns í atvinnumálum, er viðkomandi félagsmanni heimilt að leggja deilumál fyrir stjórn félagsins sem er þá skylt að taka málið í sínar hendur og reyna að leysa deiluna á þann veg að viðkomandi félagsmaður tapi í engu við lausn málsins.
Náist ekki samkomulag um viðunandi lausn skal skjóta málinu til skrifstofu STF er tekur þá málið til endanlegrar afgreiðslu.
10. grein.
Skyldur félagsmanna eru:
a. Að hlýða lögum og reglum félagsins og sjóða innan STF.
b. Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið svo og STF.
c. Að greiða áskilin gjöld til félagsins á réttum tíma.
d. Að halda trúnað um það sem fer fram á fundum félagsins, ef stjórnin krefst þess.
11. grein.
Hafi félagsmaður gegnt trúnaðarstörfum í félaginu í 2 kjörtímabil samfleytt, getur hann skorast undan endurkjöri í jafnlangan tíma.
12. grein.
Hafi félagsmaður vanrækt greiðslu áskilinna gjalda félagsins í þrjá mánuði er stjórninni heimilt að svifta viðkomandi öllum réttindum. Geri viðkomandi félagsmaður upp skuldina að fullu öðlast hann aftur full réttindi um leið. Hefji viðkomandi félagsmaður að greiða aftur til félagsins án þess að gera upp skuld, geta réttindi hann skerst það árið í réttu hlutfalli við greiðslur.
13. grein.
Félagsmenn skulu ekki ganga inn á verksvið annars félagsmanns t.d með því að bjóða annan frá verki með lægra kauptilboði.
14. grein.
Í öllum kaup- eða kjaramálum, milli verkamanna og vinnuveitanda, skulu félagsmenn vera hlutlausir, hvort sem um verkföll eða verkbönn er að ræða. Hinsvegar er hverjum starfandi félagsmanni skylt að gæta þeirra verðmæta er honum er treyst fyrir og verja þau skemmdum eftir getu.
III. Kafli
Stjórn
15. grein.
Stjórn félagsins skal skipuð þremur félagsmönnum, formanni, ritara og gjaldkera. Eru þeir valdir á aðalfundi og kosnir skriflega eða með handauppréttingum ásamt jafnmörgum til vara. Kosningin er til tveggja ára. Ennfremur skulu kosnir 2 skoðendur reikninga. Stjórn félagsins skal endurskoða lög félagsins milli aðalfunda og bera upp tillögur að breytingum á aðalfundi ef þörf krefur. Aðalfundur félagsins hefur einn vald til að breyta lögum félagsins og þarf til þess 2/3 hluta atkvæða fundarins.
16. grein.
Formaður hefur eftirlit með öllum störfum félagsins, boðar til stjórnarfunda og félagsfunda þegar ástæður eru til og stjórnar þeim. Hann hefur og á hendi allar framkvæmdir er félagið varða ásamt meðstjórnendum sínum.
17. grein.
Ritari sér um skrásetningu funda, varðveislu fundargerða og heldur utan um mikilvæg skjöl og gögn félagsins.
18. grein.
Gjaldkeri hefur á hendi bókhald og greiðir gjöld félagsins í fullu samræmi við ákvörðun stjórnar og aðalfundar. Hann skal hafa afhent reikninga til skoðenda reikninga eigi síðar en viku fyrir aðalfund hverju sinni. Gjaldkeri varðveitir eignir félagsins og ávaxtar þær. Reikningsár félagsins sé almanaksárið.
IV. Kafli
Aðalfundur
19. grein.
Aðalfundur skal haldin á tímabilinu frá 31. janúar til 31. maí ár hvert. Skal boða til hans af stjórn félagsins með minnst 10 daga fyrirvara.
20. grein.
Fundarstjóri á aðalfundi skal kosinn utan stjórnar með meirihluta atkvæða fundarmanna. Stjórnin semur dagskrá fyrir fundinn. Að dagskrá tæmdri má og getur fundarstjóri leyft frekari umræður, ef þess er óskað. Fundargerð telst samþykkt eftir samantekt ritara í lok fundar ef enginn félagsmaður gerir athugasemd við hana. Stjórn félagsins undirritar fundargerð á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.
21. grein.
Á dagskrá aðalfundar skulu vera eftirtaldir dagskrárliðir auk hvers kyns dagskrármála sem stjórn ákveður og varða starfsemi félagsins:
1. Fundarsetning og kosning fundarstjóra.
2. Skýrsla stjórnar og ársreikningur lagður fram til samþykktar.
3. Umræður um orlofssjóð.
4. Ákvörðun félagsgjalds.
5. Lagabreytingar, ef við á.
6. Kosning stjórnarmanna, varamanna og skoðunarmanna, til tveggja ára í senn.
7. Kosning fulltrúa í stjórn STF, auk varamanns.
8. Önnur mál.
V. Kafli
Skyldur félagsins við STF.
22. grein.
Aðalfundur kýs fulltrúa félagsins í stjórn STF, auk varamanns. Fulltrúi félagsins í stjórn STF skal einnig sækja Sambandsþing STF sem er haldið annað hvert ár, ásamt fulltrúum skv. reglum STF.
23. grein.
Fulltrúi félagsins í stjórn STF greinir stjórn STF reglulega frá störfum félagsins og þróun í fjölda félagsmanna.
24. grein.
Félagið greiðir mánaðarlegt gjald til STF eftir því sem stjórn STF ákveður hverju sinni.
VI. Kafli
Heiðursfélagar.
25. grein.
Stjórn félagsins hefur heimild til að velja heiðursfélaga úr röðum félagsmanna, ef henni þykir ástæða til og verðleikar eru fyrir hendi. Heiðursfélagar skulu undanþegnir gjaldskyldu en hafi þó full félagsréttindi s.s. tillögu- og atkvæðisrétt. Þó séu þeir eigi skyldir að gegna nefnda- né stjórnarstörfum fyrir félagið.
Lög samþykkt á aðalfundi félagsins 2025. Ekki má breyta þessum lögum, úr þeim fella, né þau auka nema á löglegum aðalfundi félagsins. Lög þessi taka þegar gildi.